verkefnið

Íslensk fatahönnun á sér engan líka og er ung grein í stöðugum vexti. Viðskiptavinir geta haft áhrif á eflingu og vöxt innlendra atvinnugreina með því að velja vörur frá íslenskum fyrirtækjum. Við trúum því að íslensk fatahönnun sé byggð á þörfum, reynslu og arfleið samfélagsins hér og með því að velja hana sýnir fólk stuðning við eflingu vaxandi atvinnugreinar á Íslandi. Með verkefninu viljum við vekja athygli fólks á því að staldra við og skoða íslenska fatahönnun næst þegar það fjárfestir í flík.

Deildu þinni íslensku flík með #íslenskflík á samfélagsmiðlum

Hvers vegna íslensk flík?

„Íslensk flík“ er vitundarvakning Fatahönnunarfélags Íslands sem miðar að því að kynna íslenska fatahönnun og vekja athygli á því framúrskarandi hugviti og þeim fjölbreyttu vörum sem íslensk fatahönnunarfyrirtæki bjóða upp á ásamt þeim möguleikum sem felast í greininni. Fatahönnun er ungt fag á Íslandi og þrátt fyrir stöðugan vöxt er greinin ekki eins rótgróin og í mörgum löndum. Það þarf þó ekki að líta lengra en til næstu nágrannalanda til að sjá að efnahagslegt virði hennar getur verið talsvert.

Íslenskir fatahönnuðir hafa með réttum stuðning allar forsendur til þess að fylgja í fótspor nágrannalandanna, efla atvinnugreinina og skapa verðmæti og fleiri störf. Neytendur geta haft áhrif á eflingu og vöxt innlendra atvinnugreina með því að velja íslenskar vörur. Íslensk fatahönnun er oft umhverfisvænni kostur og með því að velja hana styður þú við eflingu vaxandi atvinnugreinar á Íslandi.

Má því ekki bjóða þér að velja að klæðast íslenskri flík?

Sjálfbærni og verðmætasköpun

Íslensk fatahönnun hefur sóknarfæri til að verða leiðandi á sviði sjálfbærni og nýrrar nálgunar í takt við tíðarandann. Heimurinn kallar eftir breytingum og mörg lönd standa frammi fyrir þeirri áskorun að breyta verðmætum en óumhverfisvænum iðnaði til hins betra. Þarna höfum við á Íslandi forskot þar sem iðnaðurinn er enn að byggjast upp og getur því ekki gert annað en skapað ný verðmæti á nútímalegum forsendum. Nú er færi á að byggja upp og efla nýjar atvinnugreinar hér á Íslandi sem stuðla að aukinni sjálfbærni.

Atvinnusköpun

Í kringum eitt fatahönnunarfyrirtæki sem nær árangri geta skapast fjölbreytt og skapandi störf sem krefjast hás menntunarstigs. Allt frá sviði markaðssetningar, verslunar og viðskipta til vefþróunar. Því er eftir miklu að sækjast þegar hugað er að ákjósanlegri atvinnuuppbyggingu sem uppfyllir kröfur ungs fólks sem er að mennta sig. Nú sem aldrei fyrr er mikilvægt að byggja upp fleiri og fjölbreyttari atvinnugreinar á Íslandi. Starfsemi tengd fatahönnun er aðlaðandi kostur fyrir ungt fólk sem hefur áhuga á hönnun, nýsköpun, viðskiptum og sjálfbærni.

Hugvit

Starf fatahönnuðarins er fjölbreytt og einkennist af þróun og skapandi ferli, ekki ósvipað og í öðrum listgreinum. Útkoman er hagnýt, fatnaður sem hægt er að klæðast við misjöfn tilefni. Íslenskir fatahönnuðir eru eins misjafnir og þeir eru margir en eru þekktir fyrir framúrstefnulega nálgun á hönnun sem oftar en ekki er innblásin af okkar einstöku náttúru, arfleið og fólki. Saga fatagerðar og handverks á sér djúpar rætur hér á landi. Mikilvægt er að unnið sé á skapandi hátt með arfleið okkar og að nærsamfélag og menning fái speglun á þessu sviði.

Hvers vegna ekki íslensk flík?

Kæri lesandi. Líttu inn í fataskápinn þinn og kannaðu hvort þar leynist ekki norræn hönnun. Þér þykir það ef til vill sjálfsagt en þessi flík er í skápnum þínum vegna þess að stutt hefur verið við atvinnugreinina í nágrannalöndum okkar. Íslenskir fatahönnuðir hafa með réttum stuðning allar forsendur til þess að fylgja í fótspor nágrannalandanna, efla atvinnugreinina og skapa verðmæti og störf. Til þess þarf að auka trúverðugleika, skilning og sýnileika á greininni, bæði í atvinnulífinu og meðal almennings til að stuðla að auknum vexti.

 

 

Ljósmyndir: Marsý Hild Þórsdóttir

Listræn stjórnun: Ellen Loftsdóttir

  • Instagram

© 2020 Fatahönnunarfélags Íslands